Tækifærisljóð

Þankaríma

1.
Er við banka óðs og lags
eg fór krankur glíma,
orðin sankast að mér strax
upphefst Þankaríma.

2.
Við það kannast vil nú hér
víst það sannast óðum,
margt ég fann sem misjafnt er
í minninganna sjóðum.

3.
Gekk ég frjáls sem leiðin lá
leikur máls var hulinn.
Fell og hálsar hímdu þá
hömlum tálsins dulin.

4.
Samt ég þekki þennan stig
þessar bekkur, hjalla,
virðist blekking brengla mig
bót á fekk þar varla.

5.
Æfa ný skal áratog
óð minn því ákalla,
bresta sýjaborgir og
bernskuvígi falla.

6.
Játa eg tregur máttin meins,
margt nú þegar veitist.
Þessi vegur því er eins
það er ég sem breytist.

7.
Orð mig brestur, samt hver sér
sumt er best að geyma.
Eitt hið versta virðist mér
að verða gestur heima.

8.
Tæmist tími, dagur dvín
dæmast mínar gerðir.
Þessi ríma er þekking mín
um það sem glímur herðir.

9.
Er við blankan sagnasvelg
seiðs- mín vankast -gríma.
Upp minn hanka orðabelg
endar Þankaríma.
Höfðingjaheimsóknir

Oft á tíðum er það alveg hlálegt hvernig lífið og tilveran tefla við okkur skákina, með óheppnina og tilviljun eina að taflmönnum og þá kemur nú æði oft upp sú staða sem svo sannarlega var ekki á óskalistanum. Þetta á nú síst ekki við þegar við erum að reyna að vera hátíðleg eða gáfuleg. Eitt slíkt tilfelli hendir næstum alltaf þegar höfðingjar koma í heimssókn, því þá þarf nú aldeilis að tjalda því sem til er.

Einhvern tímann kom Svíakóngur í heimssókn til Íslands. Hann hélt sig nú mest austanlands karlgreyið og var reyndar þó nokkuð ánægður með túrinn, þó að hann kæmi ekkert við í Skagafirðinum.

Adólf kóngur gerði góða reisu
gekk bara út og læsti Svíahöll
klæddi sig í prjónabrók og peysu
og prílaði upp á Austurlandsins fjöll.

Um fjöllin þar hann skakklappast og skeiðar
og skemmtilega sagan oft er ýkt
þetta heita villidýraveiðar
og voðalega fínt að gera slíkt.

En hamingjan er hliðholl villidýrum
það hendir oft að þokan byrgir sýn
eftir daglangt streð í drullu og forarmýrum
menn drattast heim og líta út eins og svín.

Og veiðidýrin áfram halda að hlæja
því happaleysið margan leikur grátt
en víst má telja villidýragæja
villu - dýrin mestu á sinn hátt.

Nei þá var nú sko aldeilis eitthvað annað uppi á teningnum þegar hún Vigdís var að heiðra landann með heimsóknum sínum. Þá þurfti allt að vera með slíkum stæl, að saklausir sveitamenn boruðu bara upp í nefið og klóruðu sér í hausnum mitt í reykmekkinum þegar að hraðlestin var rokin úr augsýn;

Amríski stællinn, hann allsekki brást
í ofvæni beið hennar skarinn
keyrslan var slík, að í svipstund hún sást
svo var hún komin, og farin

Það hefði nú þó aldeilis verið ástæða fyrir hana Vigdísi að stoppa ögn við, því ekki var nú búið að hafa svo lítið fyrir þessu uppátæki

Í hreinlætismálunum tekið var tak
og tvisvar öll sveitin var þvegin.
En bóndi einn úr fjósinu bústofn sinn rak
og beljurnar drulluðu á veginn

Samt sem áður tygjast allir til, sem að vettlingnum valda, því nú er efnt uppá tilstand í samkunduhúsinu, þó að bændur væru nú auðvitað búnir að vaka minnsta kosti síðasta hálfan mánuðinn sleitulaust alveg, við annasöm vorverkin;

Menn setja sig óðar í samkomustand
með svefnþrungna augnanna slikju.
Að vitum berst ítrekað ilmvatna bland
við angan af súrheyi og mykju.

Á samkundu slíkri er margt svolítið spes
það er sussað um stund á skrílinn.
Í hátíðleik ræðuna hreppstjórinn les
meðan hundarnir míga upp við bílinn.


Limrur úr erlendis ferðum

1.
Þó limran sé sjaldan sungin
er sagan af gáska þrungin
og skemmtun hjá þeim
er skreppa út í heim
með skjóðuna sína og punginn.

2.
Að versla þar virðist hver slunginn
þó er vegferðin beyskju þrungin.
Eftir linnulaust staut
oss loks verður þraut
að skjögra um með skjóðuna og punginn.

3.
Því heldur fram "hringatróðan"
sem hafa vill manninn sinn góðan,
að ef frelsi er ei leyft
og fátt eitt sé keypt
þá er pungurinn skárri en skjóðan.

4.
Ef versla þarf vörurnar tvennar,
er oft vissara að kaupa þrennar.
Og hvort sem það má,
þá vill karlinn oft fá,
að skjótast í skjóðuna hennar.

5.
En hérna nú endar minn óður.
Ef undrast þú lesandi góður,
þá get ég því mætt,
og get meira rætt,
svo skrýtið um punga og skjóður.