Sönglagatextar


Ljósið á kertinu lifir.

Á kertinu mínu ég kveiki í dag
við krossmarkið helgi og friðar,
því tíminn mér virðist nú standa í stað
en stöðugt þó fram honum miðar.
Ég finn það og veit að við erum ei ein
að almættið vakir oss yfir,
því ljósið á kertinu lifir.

Við flöktandi logana falla nú tár
það flýr enginn sorgina lengi.
Hún braut allar vonir, hún braut allar þrár,
hún brýtur þá viðkvæmu strengi,
er blunda í hjarta og í brjósti hvers manns.
Nú birtir, og friður er yfir,
því ljósið á kertinu lifir.

Sá einn þekkir gleðinnar gáska og fjör
sem gist hefir þjáning og pínu.
Sá einn getur sigrast á ótta og kvöl
sem eigir í hugskoti sínu,
að sorgina við getum virkjað til góðs
í vanmætti sem er oss yfir,
ef ljósið á kertinu lifir.

Munastund

Nú sit ég hér þögull og sveipa mig hljótt
í sögunnar margslungnu þræði.
Ég kvíði því ekki er kemur þú nótt,
ég kyrrðina þrái og næði.
Og ljósið mitt augnaráð fangað hér fær,
það flöktir á kerti í stjaka,
af gusti frá minningu er mér færist nær,
sú minning ei víkur til baka.

Ég greindi öll djásnin, sem gæfan svo mörg
í götuna mína þá lagði.
Ég sá margan gimstein, ég sá marga björg,
en sagði engum frá því, og þagði.
Mér fannst að ég ætti mér fjársjóði þar
og færi mín samviska að þjaka,
þá gaf ég að jafnaði´ í gáska það svar,
ég gríp þetta´ er kem ég til baka.

En genginni vegferð nú get ekki breytt,
þó gimsteina vænti þar fundar.
Að stefna til baka það stoðar ei neitt
mót straumfalli líðandi stundar.
Og ennþá fram tími minn tifar hér ótt,
svo tæmist hver stund til að vaka.
Ég kyrrðina þrái, er kemur þú nótt.
nú kertið er brunnið að stjaka.


Bros og tár

Þau vaka lengi í muna öll hin vinalegu svör
er veitast lífsins ferðum á.
Og bróðurþel er mætir, í brosinu á vör,
er besta kveðjan vini frá.
En bak við byrgða glugga þar sem birtan ekki skín
þar bíður sá er þekkir ei, né skilur örlög sín.
Hann getur öðrum dulið, þar sínar þöglu þrár
og þerrar einn hin hljóðu tár.

Það er svo margt sem vekur okkar vonir, okkar þrár
því vonarljósið blikar skært.
Er óskir fá að rætast, þá glitra gleðitár
og gleðibros er öllum kært.
Því kærleiksbrosið hlýja, sem að friðinn færir þér
það færir burtu kvíða sem býr við hjarta mér;
það brjóst þess fyllir gleði, er byrgir ljósin sín
og bros hans gegnum tárin skín.