Eftirmæli

Minning

Kristján Austdal Guðjónsson
Skatastöðum.

Haustgráminn fjötrar um fjall og um dal
hinn fallvalta gróður er rísa þó skal
á ný, og upp vaxa að vori.
Enn dauðinn sem fyrr hefur gengið um garð
og grið veitir enga því koma hér varð
með hélu í hrímköldu spori.

Ég þarf ekkert leyfi, mig ljóðdísin bað
að láta þær hugsanir mínar á blað
er bærast við burtkall hins þjáða.
Hún leiðir til fanga í ljóðorða brunn
hún leggur svo gjöful mér orðin í munn
um hug þess er nú leggst til náða.

Hve vel ég þann skil er velur það starf
og ver sínum kröftum að rækja þann arf
sem inndalabónda er borinn.
Hann unir við heiðar og afréttar skaut
að uppskera gleði og söknuð og þraut
þar naumt var oft skammturinn skorinn.

Að brjóta sitt land og því bylta í flag
sjá bera þar ávöxt hvern erfiðan dag.
Á mátt sinn og moldina trúa.
Að standa við orfið á iðgrænum teig
og auðlegð þá fagna er grasið þar hneig
af ljánum og lagðist í múga.

Í hamförum vetrar í hörkum og byl
var hugarró sælust er gjöfin var til
á garðann, þótt gengi á með hríðum.
Í aðdráttum leggja varð land undir fót
oft leiðin var ströng og brekkan í mót.
Á bakið þá treysta varð tíðum.

Þeim fækkar nú óðum sem fylltu þá sveit
er fann sér þar nægtir við gróandi reit
og einvígi háðu við aflið.
Það afl sem að fólgið er fallvötnum í
sem fannirnar lemur í stóveðra gný.
Og vissu, að vinnast mun taflið.

Við alsnægtir nútíðar enginn fær kynnst
hve örðug var glíman sem hér er á minnst
því tímarnir batna og breytast.
Til fundar við lífið menn skunda nú skjótt
þar skammur er tíminn að nema þar fljótt
þau gæðin er víst munu veitast.

Ég dreg það í efa að dásemd þess lífs
sé dýrri en hins, er til skeiðar og hnífs
varð naumlega löngum að leggja.
En takmarkið verða skal ávallt það eitt
að una við sitt, það sem fæst og er veitt.
Við minnumst hér tímanna tveggja

22.október 1988.