Hagyrðingur

Því fer nú betur, að vísan er aftur að ná aukinni virðingu, og vísnagerð og tækifærisvísur orðið afar vinsæl afþreying og skemmtiefni.
Ég hef stundað vísnagerð frá barnæsku og ort ógrynni af tækifærisvísum og lausavísum við öll hugsanleg tækifæri.
Mikið berst mér af beiðnum um vísur til að setja á kort eða skeyti, að senda vinum og kunningjum af sérstökum tilefnum, jól, áramót, barnsfæðing, gifting, nýtt hús, o.fl. o.fl. Stundum eru mér skömmtuð efnistök, oft má ég ráða sjálfur, og set ég hér neðan við smá sýnishorn af slíkri iðju. Sértu með óskir um þjónustu sem þessa, er ekki úr vegi að senda mér tölvupóst og svo er bara að sjá hvað kemur út úr því.

50 ára afmæli.

Samúðarhveðju hér set ég á blað
því sárt mun af æskunni að líta.
En ellinni finna þú ættir stað
og öll hennar gæði nýta.

Og kveðja send óskírðu barni

Á sumartíð þú lítur dagsins ljós
er lífið frjótt á gróðurilmi nærist;
er mildar nætur faðma fjólu og rós
þér fagnar allt, sem lifir grær og hrærist.

Því ljóssins vættir lýsa garðinn þinn
og leiða þig um nýja ferðavegi.
Þinn geisli skín í hugans helgi inn
og helgar birtu hverjum nýjum degi.

Á jólakort.

Sá er oss sorgir fól
sigra og gleðitár,
færi nú friðarjól
fagnaðarríkt ár.

Ég var einn upphafsmanna eða stofnenda Hagyrðingamóta, þ.e. landsmóta hagyrðinga sem haldin eru síðan árlega víðsvegar um land, og var sá stofnfundur haldinn á Skagaströnd 9. september 1988. Þá hef ég einnig tekið þátt í fjölmörgum hagyrðingamótum, og hagyrðingaþáttum sem birst hafa bæði í útvarpi og sjónvarpi, haldið úti vísnaþætti í blöðum o. fl.
Á slíkum samkundum sem áður getur, er gamansemin í hávegum höfð, og kveðskapurinn því oftast nær samkvæmt því.

Venja er að þátttakendur kynni sig með vísu.

Ég vil tengja tilvist mína
tveimur megin þáttum hér.
Þeim, að láta ljós mitt skína
og láta taka eftir mér.

Svar við spurningunni: "Hvað er gæðingur" ?

Sínum augum silfrið lítur hver
sífellt meir á ferðalög við stólum.
Og gæðingur þá veit ég víst að er
með vökvastýri og drif á öllum hjólum.